Erlent

Notar kókoshnetur til skjóls

Kolkrabbinn með kókoshnetuna Líklega fyrsta dæmið um hryggleysingja sem notar verkfæri.Nordicphotos/AFP
Kolkrabbinn með kókoshnetuna Líklega fyrsta dæmið um hryggleysingja sem notar verkfæri.Nordicphotos/AFP

Ástralskir vísindamenn hafa fundið kolkrabbategund í Indónesíu sem safnar kókoshnetuskeljum og notar þær til að skýla sér. Þetta er líklega í fyrsta sinn sem hryggleysingi sést nota verkfæri.

Teknar voru kvikmyndir af atferli kolkrabbans, þar sem hann sést ná sér í hálfar kókoshnetuskeljar af hafsbotni. Hann byrjar á að tæma skeljarnar og dregur þær síðan undir sér allt að 20 metra. Loks setur hann tvær skeljar saman þannig að þær mynda kúlulaga skjól sem hann getur falið sig í.

„Ég hef séð marga kolkrabba fela sig í skeljum, en ég hef aldrei séð neinn þeirra taka eina slíka upp og burðast með hana á hafsbotninum. Það var erfitt að fara ekki að hlæja,“ sagði Julian Finn, sem ásamt félaga sínum Mark Norman frá Viktoríusafninu í Melbourne í Ástralíu tók eftir þessu atferli kolkrabbanna.

Ekki er vitað til þess að aðrir hryggleysingjar noti verkfæri, en reyndar er misjafnt hvernig vísindamenn vilja skilgreina verkfæranotkun. Þeir Finn og Norman telja nægja að dýrið nái sér í hlut og búi hann undir notkun síðar meir.

„Það er þessi söfnun til seinni tíma notkunar sem er óvenjuleg,“ segir Finn.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×