Innlent

Galið að herða innheimtu

Björn Þorri Viktorsson segir það galið að fyrirtæki gangi hart gegn skuldurum.
Björn Þorri Viktorsson segir það galið að fyrirtæki gangi hart gegn skuldurum.

Ríki og sveitarfélög hafa síðan fyrir jól farið mildari höndum um skuldara, segir framkvæmdastjóri Credit info á Íslandi. Því er ólíkt farið með ýmis einkafyrirtæki sem hafa hert á innheimtunni. Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður segir hagsmuni lánardrottna að skuldir verði færðar niður handvirkt. Strax. Enginn hafi hag af því að kreppan dýpki. Það sé í raun galið að ganga hart að skuldurum.

Fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi að auglýstum nauðungaruppboðum á eignum einstaklinga á Íslandi hefði fjölgað um nærri 180% það sem af er þessu ári, þegar tekið er mið af meðaltali auglýstra nauðungaruppboða síðustu þrjú ár þar á undan. Alls er búið að auglýsa nauðungaruppboð á 590 íbúðum fólks fyrstu tæplega átta vikur ársins. Ekki eru þó allar þessar eignir á endanum seldar á nauðungarsölu, en ekki hefur tekist að fá upplýst hversu hátt hlutfall af auglýstum framhaldsuppboðum leiða til þess að fólk missir heimili sín.

Rakel Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri Credit info á Íslandi, sem heldur utan um ýmsar viðskiptaupplýsingar. Hún segir fjölgun auglýstra nauðungaruppboða koma sér á óvart.

Stjórnvöld hafa lagt á það áherslu að fara þurfi mildari höndum um skuldara í þessu ástandi. Rakel segir að eini hópurinn sem farinn sé að sýna meiri slaka í innheimtu skulda sé hið opinbera.

Á þriðjudaginn lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp um frestun nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis fram til hausts sem tryggir íbúum búsetu til að minnsta kosti tólf mánaða eftir uppboð. Það er ekki orðið að lögum og enn er verið að keyra innheimtuna á fullu gasi, og samkvæmt upplýsingum frá Intrum hafa sum fyrirtæki, sem berjast upp á líf og dauða, hert innheimtu skulda. Það segir Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður að sé galið í núverandi ástandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×