Innlent

Tólf þingmenn gefa ekki kost á sér

Tólf þingmenn hafa lýst yfir að þeir bjóði sig ekki fram í þingkosningum í apríl, heldur fleiri en hættu á þingi fyrir síðustu kosningar. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað á Alþingi undanfarin nokkur ár.

Einn þingmaður, Árni R. Árnason, lést og sjö aðrir sögðu af sér á kjörtímabilinu 2003 til 2007, þrír hjá Sjálfstæðisflokki og tveir hjá Framsókn og Samfylkingu.

Einn þingmaður, Árni R. Árnason, lést og sjö aðrir sögðu af sér á kjörtímabilinu 2003 til 2007, þrír hjá Sjálfstæðisflokki og tveir hjá Framsókn og Samfylkingu.

Fyrir alþingiskosningarnar 2007 ákváðu tíu þingmenn að gefa ekki aftur kost á sér, fjórir frá Sjálfstæðisflokki, þrír frá Framsókn og þrír frá Samfylkingu.

Að auki náðu átta þingmenn frá síðasta kjörtímabili ekki sætum nógu ofarlega á listum flokka sinna til að eiga möguleika á þingsæti árið 2007.

Þá náðu sex þingmenn ekki endurkjöri í kosningunum 2007, þrír frá Framsóknarflokki, einn frá Samfylkingu og tveir frá Frjálslynda flokknum.

Það voru því 32 þingmenn frá síðasta kjörtímabili sem ekki komu aftur til þings að loknum kosningum 2007 eða ríflega helmingur þingmanna, en varamenn þeirra sem hurfu á kjörtímabilinu náðu margir kjöri. Ellefu hurfu frá Sjálfstæðisflokki, átta frá Framsókn, níu frá Samfylkingu og fjórir frá Frjálslynda flokknum. Enginn hvarf á braut frá Vinstri Grænum milli kjörtímabila.

Við síðustu kosningar komu 18 nýir þingmenn á þing, lang flestir frá Sjálfstæðisflokki, eða níu. Á kjörtímabilinu hafa þrjár nýjar þingkonur sest á þing, Herdís Þórðardóttir við andlát Einars Odds Kristjánssonar og tvær vegna afsagnar þingmanna Framsóknarflokksins.

Fyrir komandi kosningar hafa tólf þingmenn tilkynnt að þeir bjóði sig ekki fram á nýjan leik, þar af fjórir sem eingöngu hafa setið það sem af er yfirstandandi kjörtímabili. Hvernig sem kosningaúrslit fara í næstu kosningum er því ljóst að komandi þing verður með þeim allra yngstu ef miðað er við þingreynslu og það er langt síðan önnur eins endurnýjun hefur átt sér stað á Alþingi á eins skömmum tíma og undanfarin nokkur ár..






Fleiri fréttir

Sjá meira


×