Innlent

Segir Ögmund vilja koma höggi á sig

Guðlaugur Þór Þórðarson segir að Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra einbeiti sér að því að koma höggi á sig.
Guðlaugur Þór Þórðarson segir að Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra einbeiti sér að því að koma höggi á sig.
„Það er ljóst að núverandi heilbrigðisráðherra einbeitir sér fyrst og fremst að því að koma höggi á undirritaðan í stað þess að hugsa um heilbrigðismál, enda málaflokkurinn flókinn og erfiður og ýmsar aðgerðir sem nú eru nauðsynlegar lítt fallnar til vinsælda," segir Guðlaugur Þór Þórðarson á vefsíðu sinni. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því í kvöld að heilbrigðisráðuneytið hafi keypt sérfræðiaðstoð fyrir 24 milljónir á þeim tíma sem Guðlaugur var ráðherra.

„Þetta er önnur atlagan sem Ögmundur gerir að mér og mínum störfum á aðeins tveimur dögum. Það er alþekkt að ráðuneyti, sveitastjórnir og fyrirtæki leita sér ráðgjafar, bæði til nálgast sérfræðiþekkingu og einnig vegna mikilla anna. Af augljósum ástæðum var það gert í heilbrigðisráðuneytinu eins og annar staðar," segir Guðlaugur.

Guðlaugur segir að óvenju mikið hafi verið um forföll í ráðuneytinu síðustu misseri. Ráðuneytisstjóri hafi verið í veikindaleyfi í fjölda mánaða auk þess sem staðfengill ráðuneytisstjóra sem og forstöðumaður lögfræðiðsviðs hafi verið í árslöngu námsleyfi. Þá hafi einn sérfræðingur ráðuneytisins í heilsustefnu verið lengi frá vegna veikinda á sama tíma og annar hafi verið í fæðingarorlofi.

„Þessi forföll juku mjög á sérfræðiþörf ekki síst í ljósi þess að stór verkefni voru mörg í ráðuneytinu. Þær tölur sem nú hafa verið birtar eru með virðisaukaskatti og lætur heildartalan því nærri að vera 20 milljónir á þessu 20 mánaða tímabili. Sú upphæð er innan við 3% af heildarrekstrarkostnaði ráðuneytisins sem ber ábyrgð á rekstri heilbrigðisstofnana á Íslandi, en þær velta samtals 120 milljörðum króna á árinu 2009," segir Guðlaugur Þór á vefsíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×