Innlent

FÉSTA frystir leiguverð á stúdentaíbúðum

Næstu þrjá mánuði mun leiga íbúða hjá Félagsstofnun stúdenta á Akureyri, FÉSTA, ekki hækka samkvæmt vísitölu neysluverðs. Eftir þann tíma verður farið yfir stöðuna á ný. Þetta var niðurstaða stjórnar FÉSTA sem fundaði um ástandið á leigumarkaðnum.

Það var niðurstaða FÉSTA að leiguverð á almennum markaði hefði lækkað undanfarið og væri í sumum tilfellum orðið sambærilegt leigu hjá FÉSTA og hægt væri að finna dæmi um enn meiri lækkun. Við þessu vill stjórn FÉSTA bregðast með því að frysta leiguverðið.

Þá segir Jónas Steingrímsson, framkvæmdastjóri FÉSTA, í tilkynningu til fjölmiðla að góðar líkur séu á að Akureyrarbær taki upp sérstakar húsaleigubætur til þeirra tekjulægstu. Endanleg ákvörðun um þetta verði tekin hjá bænum á næstunni. Vonast sé til þess að þetta geti komið til framkvæmda með vorinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×