Innlent

Hér verði einn þjóðarbanki

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segist ekki hafa stífar skoðanir á eignarhaldi útlendinga á íslenskum bönkum. Hann gerir þó þá kröfu að hér verði einn banki í eigu þjóðarinnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali við Fréttablaðið á laugardag að réttast væri að erlendir kröfuhafar eignuðust hlut í íslensku bönkunum.

„Það er alveg ljóst að í eigu okkar landsmanna þarf að vera banki og það var nokkuð sem við lögðum áherslu á á sínum tíma; að hér væri raunveruleg kjölfesta í fjármálalífinu í íslenskum þjóðar­banka. Það finnst mér vera mál málanna, ekki það hvort útlendingar eiga eða reki bankana," segir Ögmundur. Hann segir líka mikilvægt að farið verði eftir reglugerðarverki um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka.

Össur segist sammála Sigmundi. „Í þessu, eins og svo mörgu öðru, fara skoðanir formanns Framsóknar­flokksins saman við viðhorf utanríkisráðherra. Ég tel að það gæti verið æskilegt að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum. Um leið þá eignast þeir líka hlutdeild í væntanlegum ávinningi og það mundi aðstoða við endurfjármögnun þeirra og opna aftur lánstraust erlendis.

Þetta er þess vegna kostur sem ég er reiðubúinn að skoða út í hörg­ul, hvort sem er í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum eða ekki." - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×