Innlent

Umferðaróhöppum fækkaði árið 2008

Eftir nokkurra ára stöðuga fjölgun umferðaróhappa fækkaði tjónum í umferðinni í fyrra um 5% samkvæmt samantekt Forvarnahússins. Slysum á fólki í umferðinni fækkaði mun meira eða um 14,2%. Á sama tíma fjölgaði ökutækjum um 1.25% samkvæmt tölum Umferðarstofu úr rúmlega 240 þúsund í rúmlega 243 þúsund.

Ýmsar skýringar má nefna sem ástæður þess að tjónum hefur fækkað, segir í tilkynningu Forvarnarhússins. Ljóst sé að seinni hluta ársins hafi dregið verulega úr umferð. ,,En þessi þróun hefur átt sér stað meirihluta ársins og ef umferðargreinar Vegagerðarinnar eru skoðaðir hefur meðalhraði lækkað, hugsanlega vegna hækkaðs eldsneytisverðs.  Rannsóknir sýna að ef ökuhraði lækkar um 10% geti tjónum fækkað um 20% og slysum um 30%. Í fyrra slösðuðust 436 færri í umferðinni en árið 2007."

Fækkun á höfuðborgarsvæðinu

Í fyrra voru tjónin á höfuðborgarsvæðinu 68,6% allra tjóna en árið 2007 voru þau 70%. Flest alvarlegu tjónin voru utan höfuðborgarsvæðisins.

Föstudagarnir verstir

Flest tjón verða á föstudögum. 18% tjónanna urðu þá daga og 19% slysanna. Mun færri tjón verða um helgar, eða 12% á laugardögum og 8% á sunnudögum. Aðra vikudaga er nokkuð jöfn dreifing tjóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×