Innlent

Seðlabankafrumvarp verði eins gott og mögulegt er

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

„Það er enginn klofningur í flokknum. Við höfum verið mjög samstíga í þessu máli en eftir að hafa hlustað á sérfræðinginn í morgun þá mat ég það þannig að það væri tíðinda að vænta í þessari skýrslu sem snýst einmitt um þau mál sem við erum að ræða." Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins.

Í morgun hlýddi nefndarmenn í viðskiptanefnd á séfræðing frá JP Morgan og í máli hans kom fram að von væri á skýrslu frá fyrirtækinu um evrópska seðlabanka í vikunni. Minni hlutanum í nefndinni fannst vert að bíða eftir þeirri skýrslu áður en frumvarp um Seðlabanka Íslands yrði afgreitt úr nefndinni. Höskuldur var sama sinnis og það varð því raunin að málinu var frestað.

Birkir Jón Jónsson, félagi Höskuldar í Framsóknarflokknum sem einnig á sæti í viðskiptanefnd var hins vegar ekki sammála félaga sínum og greiddi atkvæði með VG og Samfylkingu sem vildi afgreiða málið úr nefnd í dag. „Það var einfaldlega sannfæring mín að það væri rétt að bíða eftir skýrslunni," segir Höskuldur. „Birkir hefur greinilega ekki deilt þessu mati. Við erum hins vegar sammála um að það eigi að vinna faglega í þessu máli en hann las þetta ekki allveg jafn mikilvægt og ég."

Höskuldur vill að það komi skýrt fram að með þessari ákvörðun sé hann ekki að tefja eða reyna að koma í veg fyrir að frumvarp ríkisstjórnarflokkanna um Seðlabankann nái fram að ganga. Hann bendir á að hann hafi sjálfur flutt frumvarp um breytingar í bankanum. „Þetta mál verður einfaldlega að snúast um það að við viljum hafa hér eins góðan Seðlabanka og hugsast getur. Ég held að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið þannig."








Tengdar fréttir

Framsóknarmenn klofnir í Seðlabankamáli

Viðskiptanefnd náði ekki ljúka umfjöllun sinni um Seðlabankafrumvarpið á fundi sínum í morgun en til stóð að þriðja umræða um málið hæfist í dag. Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni, þeir Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson, klofnuðu í afstöðu sinni. Birkir Jón greiddi atkvæði með tillögu ríkisstjórnarflokkanna um að afgreiða málið úr nefnd en það gerði Höskuldur ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×