Innlent

Fyrrum leiðtogi Sniglanna í fangelsi

Umræða um ofsaakstur vélhjólamanna var í hámæli í samfélaginu þegar slysið varð.Mynd/stöð 2
Umræða um ofsaakstur vélhjólamanna var í hámæli í samfélaginu þegar slysið varð.Mynd/stöð 2

Hæstiréttur hefur dæmt Ásmund Jespersen, fyrrverandi varaformann vélhjólaklúbbsins Sniglanna, í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir stórhættulegan ofsaakstur. Ásmundur flúði lögreglu ásamt félaga sínum á ríflega tvöföldum hámarkshraða á Suðurlandsvegi sumarið 2007.

Ofsaaksturinn leiddi til alvarlegs slyss. Héraðsdómur hafði áður dæmt Ásmund í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotið. Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið svo ógætilega að hann hefði ekki getað komið í veg fyrir það að aka yfir höfuð félaga síns þegar sá féll í götuna. Slysið varð til þess að félagi Ásmundar örkumlaðist.

Hæstiréttur sýknar Ásmund hins vegar af þeim ákærulið. Ekki sé nægilega ljóst hvort Ásmundur ók yfir félaga sinn, og því ekki heldur hvort líkamstjón hans megi rekja beint til þess. Maðurinn er bundinn í hjólastól til lífstíðar eftir slysið.

Ásmundur hafði áður misst ökuréttindi fyrir ofsaakstur. Í eitt skipti var hann með þrettán ára farþega aftan á hjólinu. Í því ljósi þótti Hæstarétti ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.

Þá staðfesti Hæstiréttur einnig ákvörðun héraðsdóms þess efnis að hjól Ásmundar skyldi gert upptækt til lögreglu. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×