Innlent

Ræddu mögulegt samstarf

Samstarf Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir fulla þörf á að hagræða í blaðaútgáfu þar sem rekstrargrundvöllur sé afar erfiður.Fréttablaðið/Vilhelm
Samstarf Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir fulla þörf á að hagræða í blaðaútgáfu þar sem rekstrargrundvöllur sé afar erfiður.Fréttablaðið/Vilhelm

Ástralski fjárfestirinn Steve Cosser, sem vill kaupa útgáfufélag Morgunblaðsins, fundaði með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stærsta hluthafa 365 miðla, og forstjóra félagsins í gær. Á fundinum var rætt um möguleika á samstarfi á sviði prentunar og dreifingar.

Cosser er annar tveggja aðila sem nú keppast um að fá að kaupa Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Hann hafði áhuga á að fara yfir samninga um prentun og dreifingu sem gerðir voru milli Árvakurs og 365 miðla, útgáfufélags Fréttablaðsins, segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla.

Samkeppniseftirlitið setti ströng skilyrði fyrir slíku samstarfi, meðal annars um stjórnunarlegan aðskilnað og fleiri atriði. Ari segir að þau skilyrði hefðu þýtt að hagræði af samstarfinu yrði of lítið, og því varð ekkert úr samstarfinu í bili.

Ari segir Cosser tvímælalaust opinn fyrir samstarfi, fái hann að kaupa Árvakur. Forsvarsmenn 365 miðla séu einnig afar áhugasamir um slíka samvinnu. Við blasi að rekstrargrundvöllur blaðaútgáfu sé svo erfiður að full þörf sé á að reyna að hagræða eins og hægt sé í rekstrinum.

Ari segir að ekki hafi verið fundað með Óskari Magnússyni, sem fer fyrir hinum hópnum sem vill eignast Morgunblaðið, um mögulegt samstarf. Óskar þekki væntanlega skilyrði Samkeppniseftirlitsins ágætlega. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×