Erlent

Obama varði stríðsrekstur Bandaríkjanna

Óli Tynes skrifar

Það hefur sjálfsagt verið mörgum ofarlega í huga í Osló í dag að ekki eru liðnir nema níu dagar frá því maðurinn sem var kominn til þess að taka við friðarverðlaunum Nóbels fyrirskipaði að þrjátíu þúsund hermenn til viðbótar skyldu sendir til að taka þátt í stríðinu í Afganistan.

Barack Obama fór ekkert í felur með að hann veit vel af því að verðlaunaveitingin hefur verið umdeild.

Hann sagði að sér fyndist hann vera afskaplega lítill samanborið við stórmenni sem áður hefðu fengið þessi verðlaun.

Obama sagði að hann væri leiðtogi þjóðar sem ætti í tveim stríðum og hann var alveg ófeiminn við að ræða um stríð.

Hnn fór ekkert í felur með þá skoðun sína að stríð geti verið réttlætanleg. Til dæmis í sjálfsvörn, til þess að aðstoðar þjóðir sem hafi orðið fyrir árásum eða vegna mannúðarsjónarmiða ef verið sé að fremja fjöldamorð á sakleysingjum.

Obama talaði líka um fórnir sem þyrfti að færa í stríði. Hann sagði að þrátt fyrir einlægan friðarvilja yrðu menn að horfast í augu við það að stundum væri ekki um annað að ræða en grípa til vopna.

Það VÆRU til ill öfl í heiminum sem þyrfti að berjast gegn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×