Innlent

Fiskvinnslur í hættu ef ákvörðun stendur

Fjölmörg fyrirtæki treysta á hráefniskaup á fiskmarkaði. Framboðið er hins vegar lítið. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.fréttablaðið/gva
Fjölmörg fyrirtæki treysta á hráefniskaup á fiskmarkaði. Framboðið er hins vegar lítið. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.fréttablaðið/gva

„Á þetta útspil ráðherrans lítum við innan samtakanna mjög alvarlegum augum. Það stefnir í að fjölmargir missi vinnuna vegna þess að svo til ekkert hráefni berst inn á fiskmarkaðina og leigumarkaðurinn er frosinn,“ segir Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var boðað að knýja ætti á um frekari fullvinnslu sjávarafla hérlendis. Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra boðaði að vigta skyldi allan fisk hérlendis og þannig fengju landvinnslur aðgang að hráefni á fiskmarkaði sem annars er flutt beint út. Nú hefur verið fallið frá þessum hugmyndum. Fimm prósenta útflutningsálag verður þó reiknað á útfluttan fisk frá áramótum, sem dregst frá aflamarki útgerðar sem flytur út til að ná fyrrgreindum markmiðum.

„Þetta álag kemur ekki til með að skipta neinu máli. Ef þetta hefði átt að hafa áhrif á útflutninginn hefði álagið þurft að vera tíu til fimmtán prósent, þá myndi það skipta útgerðina einhverju máli,“ segir Jón Steinn.

Jón Steinn segir að fjörutíu fiskverkanir víða um land treysti nær alfarið á hráefniskaup á fiskmörkuðum. Framtíð allra þessara fyrirtækja séu í hættu ef hráefnisskortur verði viðvarandi. Þetta þýði bara eitt: „Hjá nokkrum þessara fyrirtækja eru rúmlega hundrað starfsmenn og mörg hafa um fimmtíu manns. Ef ekki verða breytingar af hálfu ráðuneytisins stefnir það öllum þessum fyrirtækjum í hættu.“ Jón Steinn telur að það sama megi segja um starfandi fiskmarkaði.

Sjávarútvegsráðherra telur að fimm prósenta útflutningsálag muni jafna aðstöðu á milli íslenskrar fiskvinnslu og þeirra sem flytji út. Markmiðið sé að tryggja atvinnu; fiskaflinn verði unninn hér á landi og virðisaukinn verði eftir í landinu. Hins vegar segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að reynist aðgerðin ekki ná tilætluðum árangri muni ráðuneytið „án alls vafa grípa til frekari ráðstafana í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar“.

Það sem ýkir vandann sem kominn er upp hjá fiskvinnslum sem treysta á markað er að lítill sem enginn fiskur berst til fiskmarkaða frá þeim fimmtíu til sjötíu útgerðaraðilum sem hafa byggt upp útgerð sína að hluta til af leigumarkaðinum. Eftir niðurskurð aflaheimilda er framboð á leigumarkaði hverfandi. Afli þessara útgerða berst því ekki á fiskmarkaði eins og tíðkaðist.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×