Erlent

Torveldar gerð samkomulags

Evrópusambandið vill að Jerúsalem verði höfuðborg tveggja ríkja.
fréttablaðið/AP
Evrópusambandið vill að Jerúsalem verði höfuðborg tveggja ríkja. fréttablaðið/AP

Ísraelsþing hefur til meðferðar frumvarp að lögum um að bera þurfi undir þjóðaratkvæðagreiðslu friðarsamkomulag við Palestínumenn, ef það felur í sér að Ísraelar gefi eftir yfirráð sín í austurhluta Jerúsalemborgar eða á Gólanhæðum.

Verði frumvarpið að lögum bindur það hendur ísraelskra stjórnvalda til að gera samkomulag við Palestínumenn. Frumvarpið var samþykkt í fyrstu umferð, en enn þarf þingið að fjalla tvisvar um þetta frumvarp.

Á þriðjudag sendu utanríkisráðherrar Evrópusambandsins frá sér yfirlýsingu, þar sem ítrekuð er sú afstaða sambandsins að ekki verði fallist á að Ísraelar innlimi austurhluta Jerúsalems, sem hertekinn var í stríðinu 1967.

Utanríkisráðherrarnir hvetja þess í stað Ísraela og Palestínumenn til að deila með sér Jerúsalem, sem gæti þá orðið höfuðborg bæði Ísraels og væntanlegs Palestínuríkis.

Ísraelska utanríkisráðuneytið brást harðlega við þessari yfirlýsingu, og sagði hana ekki líklega til að auðvelda friðarviðræður.

Palestínustjórn aftur á móti hefur tilkynnt að hún muni sniðganga allar vörur, sem framleiddar eru á ísraelskum landtökusvæðum á Vesturbakkanum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×