Innlent

Geir og Ingibjörg veiti skrifleg álit

Geir H. 
Haarde
Geir H. Haarde

Utanríkismálanefnd Alþingis ákvað á fundi um Icesave-málið í gær að óska eftir því að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, geri nefndinni skriflega grein fyrir viðhorfum sínum til forsenda Brussel-viðmiðanna svokölluðu, sem og til misræmis í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands á tilteknum efnisatriðum málsins.

Kemur því ekki til þess að þau verði beðin um að koma fyrir nefndina.

„Við viljum hafa þetta skriflegt frekar en munnlegar frásagnir," segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar. Óskar nefndin þess að Geir og Ingibjörg skili svörum sínum á föstudag.

Í dag er von á álitum tveggja erlendra lögfræðistofa á samningunum við Breta og Hollendinga sem og álitsgerðum lagaprófessoranna Bjargar Thorarensen og Eiríks Tómassonar um stjórnarskrárþáttinn. Þá er stefnt að því að efnahags- og skattanefnd ljúki sinni meðferð málsins í dag.

„Nú förum við í gegnum þetta og reynum að afgreiða málið sem fyrst," segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar. Alls óvíst sé hvenær málið fari til þriðju umræðu en það verði í öllu falli fyrir áramót. „Þingið verður að fá tækifæri til að afgreiða þetta, til þess er lýðræðið," segir hann.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×