Viðskipti innlent

Endurskipulagning sparisjóðanna á áætlun

Fjármálaráðherra.
Fjármálaráðherra. Mynd/Daníel Rúnarsson
Fjármálaráðuneytið vinnur nú að því í samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið að leiða fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna til lykta og nýtur sérfræðiaðstoðar ráðgjafarfyrirtækisins Oliver Wyman við úrlausn þess verkefnis. Gengur sú vinna samkvæmt áætlun, að fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Að mati Sambands íslenskra sparisjóða eru sparisjóðirnir þjóðhagslega mikilvægir.

Alls óskuðu átta sparisjóðir eftir framlagi frá hinu opinbera síðastliðið vor. Framlagið nemur samtals um tuttugu milljörðum en ráðgert var að Byr sparisjóður fengi 10,5 milljarð af því.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að ekki liggi enn fyrir hvort að ríkið leggi sparisjóðunum til þetta fé. Málið er sagt stranda á endurskipulagningu Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur. Viðkvæmust sé þó staða Byrs sem tók við greiðslumiðlun sparisjóðanna eftir fall Sparisjóðabankans.

„Þjóðhagslegt mikilvægi sparisjóðanna er augljóst, ekki síst eftir að eignarhald viðskiptabankanna hefur skýrst," segir í tilkynningu Sambands íslenskra sparisjóða.

„Auðvelt er að sýna fram á með útreikningum að það muni kosta þjóðfélagið 80-120 milljarða króna að veita ekki þeim tæpu 20 milljörðum króna til sparisjóðanna sem neyðarlögin heimila. Þess vegna verður ekki öðru trúað en erindi sparisjóðanna fái framgang þar sem miklir hagsmunir eru í húfi," segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Byr: Endurskipulagning er vel á veg komin

Fjárhagsleg endurskipulagning Byrs sparisjóðs er vel á veg komin og hafa kröfuhafar, innlendir og erlendir, skrifað undir bindandi samkomulag þar um. Samningar eru nú á lokastigi og er einungis beðið eftir umsögn opinberra aðila.

Byr verður trauðla bjargað

Ekki liggur enn fyrir hvort ríkið leggur sparisjóðunum til eiginfjárframlag líkt og þeim stendur til boða samkvæmt neyðar­lögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×