Viðskipti innlent

Byr: Endurskipulagning er vel á veg komin

Fjárhagsleg endurskipulagning Byrs sparisjóðs er vel á veg komin og hafa kröfuhafar, innlendir og erlendir, skrifað undir bindandi samkomulag þar um. Samningar eru nú á lokastigi og er einungis beðið eftir umsögn opinberra aðila.

 

Þetta segir í tilkynningu frá Byur en þar kemur fram að fyrir liggur að fáist eiginfjárframlag það sem sótt hefur verið um frá ríkinu afgreitt og með samkomulagi við kröfuhafa fer eiginfjárhlutfall Byrs vel umfram lögbundið lágmark og verður sjóðurinn þá vel í stakk búinn til að takast á við áframhaldandi rekstur í erfiðu umhverfi.

 

„Við höfum lagt okkur fram um að ná fram niðurstöðu sem kröfuhafar geta fallist á. Það samkomulag sem nú liggur fyrir felur í sér björgun verðmæta en markmiðið er að tryggja rekstur Byrs til framtíðar og ljúka fjármögnun sjóðsins til næstu ára. Í öllu þessu ferli höfum við átt góð samskipti við FME og fjármálaráðuneytið og upplýst þá um gang mála," segir Jón Finnbogason sparisjóðsstjóri Byrs.

 

Sparisjóðirnir þjóna einkum einstaklingum og smærri fyrirtækjum. Þeir mynda eina órofa heild; keðju minni sjóða úti á landi og svo Byr sparisjóð á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri sem veitir nú þegar öðrum sparisjóðum þjónustu við m.a. innlenda og erlenda greiðslumiðlun. Sparisjóðirnir hafa einnig ritað undir viljayfirlýsingu til aukins samstarfs, að því er segir í tilkynningunni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×