Innlent

Hjúkrunarfræðingar og ríkið funda áfram í dag

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. MYND/Vilhelm

Hlé var gert á samningafundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins hjá ríkissáttasemjara nú í hádeginu en viðræðum verður haldið áfram um eittleytið.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við Vísi að það gæfi ákveðnar vonir að enn væri setið og rætt um hlutina. „Við erum að ræða ákveðna möguleika sem gætu verið spennandi," segir Elsa en telur ekki rétt að greina frá þeim á þessu stigi málsins.

Aðspurð hvort ástæða sé til meiri bjartsýni en áður í kjaraviðræðunum segir Elsa: „Við erum hér enn og erum að ræða málin og getum vonandi komist að samkomulagi sem báðir aðilar geta séð ávinning í."

Hjúkrunarfræðingar hafa neitað að semja á sömu nótum og BSRB gerði á dögunum og telja að með slíkum samningi verði þeir fyrir kjaraskerðingu. Samþykkt var að boða til yfirvinnubanns frá og með 10. júlí, sem er næstkomandi fimmtudagur, hafi ekki samist fyrir þann tíma. „Við höfum því enn nokkra daga til að semja," segir Elsa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×