Innlent

Gerræðisleg vinnubrögð borgarstjóra

Ákvörðun Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, að víkja varaformanni skipulagsráðs úr ráðinu ber vott um hótanir og gerræðisleg vinnubrögð að mati oddvita minnihlutans. Oddviti Vinstri-grænna segir borgarstjórann einangraðan.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, ákvað fyrirvaralaust í gærmorgun að víkja Ólöfu Valdimarsdóttur, varaformanni skipulagsráðs, úr ráðinu. Ákvörðun borgarstjóra kom í kjölfar ummæla Ólafar á Stöð tvö um helgina - þar sem hún sagðist ekki geta tekið afstöðu með eða á móti vinningstillögu um byggingu Listaháskóla við Laugavegi fyrr en skipulagsráð hefði fjallað um málið. Borgarstjóri er hins vegar á móti tillögunni.

Ólöf Guðný segir ákvörðun Ólafs koma sér algerlega í opna skjöldu.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi framsóknarflokks, segir að ákvörðun borgarstjóra komi á óvart og að hún sé til marks um gerræðisleg vinnubrögð. Undir þetta tekur Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri grænna.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna og formaður skipulagsráð, sagði í samtali við fréttastofu að það væri alfarið ákvörðun Ólafs F. Magnússonar hvaða fulltrúa hann skipaði í nefndir og ráð.

Ekki náðist í borgarstjóra í dag.




Tengdar fréttir

Ólöf Guðný rekin úr skipulagsráði

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir mun að öllum líkindum víkja úr skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Hún sagði við Vísi í morgun að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hafi haft samband við hana í gær og hann hafi tilkynnt henni að hann myndi tilnefna nýjan fulltrúa hennar á næsta fundi borgarráðs. Borgarráð muni svo kjósa um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×