Innlent

Þingmaður VG segir Geir ónauðsynlegan

Árni Þór  Sigurðsson er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Árni Þór Sigurðsson er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs

Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra, er ónauðsynlegur í stóli forsætisráðherra, að mati Árna Þórs Sigurðsson þingmanns Vinstri grænna. Árni segir ástandið í ríkisstjórnarliði Geirs og þingflokki vera lítið skárra en í borgarstjórnarflokknum. ,,Hann á að fara frá völdum, hans tími er liðinn," segir Árni Þór á vefsíðu sinni.

,,Forsætisráðherra segir úrskurð umhverfisráðherra um heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka hafa verið ónauðsynlegan. Þegar sami umhverfisráðherra úrskurðaði á annan veg í tengslum við annað verkefni, var allt í himna lagi að mati sama forsætisráðherra," segir Árni Þór og bætir við að svo virðist sem að stjórnsýslan eigi að fara að duttlungum Geirs.

Að mati Árna Þórs hefur pólitískur forystumaður sem hefur þetta viðhorf ekkert að gera í stóli forsætisráðherra á 21. öld. ,,Forsætisráðherra sem vill ekki að lög um mat á umhverfisáhrifum séu virt, forsætisráðherra sem vill ekki huga að hagsmunum umhverfis og náttúru og komandi kynslóða hefur ekkert að gera í ríkisstjórn. Ekkert frekar en flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur nú setið við ríkisstjórnarborðið í 17 ár og lætur eins og hann eigi þar allt og megi öllu haga að eigin geðþótta," segir Árni Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×