Innlent

Bakkafjöruvegur hefur áhrif á fuglalíf

Líkan af Bakkafjöruhöfn.
Líkan af Bakkafjöruhöfn. MYND/GVA

Skipulagsstofnun telur að framkvæmdir vegna ferjuhafnar í Bakkafjöru, vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju, séu ásættanlegar en setur þó skilyrði fyrir framkvæmdinni. Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar sem lagt var fram í dag.

Um er að ræða byggingu ferjuhafnar í Bakkafjöru í Austur-Landeyjum, vegtengingu að höfninni frá Hringveginum og efnistöku á Seljalandsheiði og úr Markarfljótsaurum. Framkvæmdaraðilar eru Vegagerðin og Siglingastofnun. Stefnt hefur verið að því að hefja framkvæmdir á þessu ári og að höfnin verði tekin í notkun árið 2010.

Hefur áhrif á lítt röskuð svæði

Í áliti Skipulagstofnunar kemur fram að framkvæmdirnar séu nokkuð umfangsmiklar og að þær muni hafa áhrif á svæði sem séu lítt röskuð eða óröskuð. Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á fugla vegna lagningu Bakkafjöruvegar, frá Hringvegi að Bakkafjöruhöfn.

„Fyrir liggur að á áhrifasvæði vegarins er að finna fuglategundir sem eru á válista og einnig ábyrgðartegundir. Svæðið sem vegurinn liggur um er á náttúruminjaskrá og hverfisverndað samkvæmt skipulagi m.a. vegna mikils fuglalífs, auk þess að vera á skrá aðþjóða fuglaverndarráðsins. Lagning allfjölfarins vegar kemur til með að hafa verulega neikvæð áhrif á fuglalíf, einkum á þann fjölda grágæsa sem eiga næturstað við Markarfljót," segir í álitinu.

Leggur Skipulagsstofnun fyrir Vegagerðina að setja fram vöktunaráætlun, sem unnin er í samráði við Rangárþing eystraog Náttúrufræðistofnun, þar sem gerð verði grein fyrir hvernig Vegagerðin hyggist fylgjast með raunverulegum áhrifum af veglagningu á fugla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×