Innlent

Segir Kjartan tvístígandi

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG.
Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG.

Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, er tvístígandi í málefnum Orkuveitunnar og varðandi Bitruvirkjun, að sögn Svandísar Svavarsdóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna. ,,Kjartan er tvístígandi eins og í svo mörgu öðru. Ég átta mig ekki á því hvað hann er að boða," segir Svandís.

Fréttablaðið hefur eftir Kjartani í dag að ekki hafi verið hætt við Bitruvirkjun heldur hafi einungis undirbúningi verið hætt á meðan málið væri skoðað betur.

Stjórn Orkuveitunnar samþykkti einróma á fundi sínum 20. maí síðastliðnum tillögu um að hætta undirbúningi við Bitruvirkjun. ,,Að fengnu áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar samþykkir stjórn OR að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og að fresta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu."

Í kjölfar ákvörðunar Orkuveitunnar óskaði Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, borgarbúum og náttúruverndarsinnum um land allt til hamingju með ákvörðunina. Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði til í borgarráði að því yrði beint til stjórnar Orkuveitunnar að endurskoða ákvörðun sína um að hætta við Bitruvirkjun.

,,Það kemur mjög á óvart að Kjartan skuli opna á þetta í ljósi yfirlýsinga borgarstjóra sem voru mjög eindregnar," segir Svandís.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×