Innlent

Gengisþróun leikur erlent verkafólk illa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einar Skúlason er framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
Einar Skúlason er framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.

Útlendingar sem hafa flust hingað til lands á undanförnum árum finna glöggt fyrir samdrætti í efnahagslífinu, að sögn Einars Skúlasonar, framkvæmdastjóra Alþjóðahúss . Á sama tíma og tekjur þeirra hér á landi rýrna vegna gengisþróunar eykst eftirspurn eftir vinnuafli erlendis.

„Það er helst gengið sem fólk hefur áhyggjur af. Fólk er kannski með helmingi lægri laun en það var með fyrir hálfu ári og þetta lítur ekki jafn vel út," segir Einar. Hann segir að þetta geti haft slæm áhrif á sjálfstraust fólks þegar það hringir heim til sín. „Þetta snertir þá sérstaklega illa sem eiga húsnæði eða einhverjar eignir í heimalandinu sem þeir þurfa að greiða af," segir Einar. Hann segir jafnframt að mikið sé um að fólk sendi peninga heim og vegna óhagstæðrar gengisþróunar beri fólk nú minna úr býtum.

Einar segir að efnahagsástandið hafi þau áhrif að samsetning þeirra útlendinga sem eru hérna breytist. Þeir sem eru einhleypir fari frekar annað en fjölskyldurnar festi hér frekar rætur og hugsi sér síður til hreyfings. „Það er ekki alslæmt því að þá fara menn að hafa meiri hug á því að taka þátt í samfélaginu, læra íslensku," segir Einar.

Einar bendir á að á meginlandinu sé farið að rofa verulega til í atvinnumálum. Í Póllandi hafi til dæmis verið um 20% atvinnuleysi fyrir ári síðan. Í vor hafi það hins vegar verið komið niður fyrir 10%. „Þannig að það er komin meiri samkeppni um það fólk sem hefur verið að vinna hér," segir Einar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×