Innlent

Stefnir í harkaleg átök á vinnumarkaði

Það stefnir í harkaleg átök á vinnumarkaði að mati formanns Rafiðnaðarsambandsins. Yfirvofandi hækkanir á þjónustugjöldum opinberra fyrirtækja gefi enda ekkert annað til kynna en að laun muni hækka um álíka prósentutölu.

Verð á heitu vatni frá Orkuveitu Reykjavíkur hækkar um 9,7 prósent um næstu mánaðamót. Orkuveitan lýtur stjórn borgarstjórnar Reykjavíkur og það kemur svo í hlut iðnaðarráðherra að staðfesta hækkunina. Að mati Guðmundar Gunnarssonar, formanns Rafiðnaðarsambandsins, felur hækkunin í sér skilaboð til launamanna að stjórnmálamenn telji laun geta hækkað á móti.

„Þessir hinir sömu menn hafa verið að ætlast til af launamönnum að þeir beri ábyrgð á stöðugleika og axli ábyrgð, séu hógværir í kjarasamningum og þess háttar en um leið og þeir hoppa hinum megin borðsins þá hækka þeir og finnst allt í lagi að hækka þjónustugjöldin og svo framvegis. Þetta stefnir í það að hér verði mjög harkaleg átök á vinnumarkaði sem munu örugglega leiða til þess, ef menn halda áfram þessum leik, að við siglum inn í enn meiri verðbólgu og enn meiri vandræði," segir Guðmundur. Þá muni stjórnmálamenn tala um ábyrgðarleysi verkalýðsins.

 

Hækkun kostnaðar og fjárfesting í nýrri hitaveitu frá Hellisheiði eru ástæður hækkunarinnar nú að sögn Orkuveitunnar og tekið er fram að þetta sé fyrsta verðbreyting fyrirtækisins frá því verð á heitu vatni var lækkað árið 2005.

Eftirminnilegasta ástæðan sem Orkuveitan hefur gefið til verðhækkunar er þó án efa sú sem gefin var í stjórnartíð Alfreðs Þorsteinssonar þegar gott veður varð til þess að landsmenn notuðu minna af heitu vatni og gjaldskráin því hækkuð.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×