Innlent

Tólf teknir með fíkniefni

MYND/HKr.

Tólf manns voru teknir fyrir fíkniefnabrot á Írskum dögum á Akranesi um helgina og þá voru átta ökumenn kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.

Enn fremur safnaði lögregla sex sinnum hópum ungmenna í misjöfnu ástandi saman og kom þeim í hendur forráðamanna. Þá komu fimm líkamsárásir til kasta lögreglu.

Í dagbók lögreglunnar á Akranesi segir þó að allt yfirbragð hátíðahaldanna hafi verið hið ágætasta og að friður hafi ríkt á tjaldstæðum. Þakkar lögregla það 23 ára aldurstakmarki á tjaldstæðum sem reyndist umdeilt og að þekktum ólátabelgjum hafi hiklaust vísað frá án tillits til þess hvort þeir hefðu aldur til að gista á tjaldstæðunum eða ekki. „Þessi ákvörðun var svo sannarlega umdeild og fjölmargar gagnýnisraddir heyrðust. Þær raddir virðast hafa hljóðnað eftir helgina enda tókst afar vel til, friður ríkti á tjaldstæðum og allt yfirbragð skemmtanahaldsins hið ágætasta," segir í dagbókinni.

Verkefni lögreglunnar um helgina snerust að verulegu leyti um að sinna fíkniefnaeftirliti og eftirliti með umferð og naut lögreglan á Akranesi aðstoðar lögreglu frá höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi og Ríkislögreglustjóra auk þess sem Öryggismiðstöð Íslands og Björgunarfélag Akraness sáu um gæslu á tjaldsæðum. Hrósar lögregla þeim síðastnefndu fyrir framgöngu sína en hún var að mati lögreglunnar lykillinn að vel heppnaðri hátíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×