Innlent

Segir að Íslendingar eigi að gæta að hag flóttamanna

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

„Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins er vikið að málefnum flóttamanna og þar er lýst yfir stuðningi við því að bjóða þeim til búsetu og dvalar hér á landi," segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, í nýjum pistli á vefsíðu sinni. Hann segir að Íslendingar eigi að beita sér af myndarskap í mannúðar- og hjálparstarfi hvort, sem er á innlendum eða erlendum vettvangi. Ríkisstjórn og Alþingi eigi að setja mun meira fjármagn til málaflokksins á komandi árum en verið hefur til þessa.

Eins og kunnugt er var hart deilt um innflytjendamál á Akranesi fyrr í maí vegna hugmynda um að bærinn tæki við flóttamönnum frá Palestínu. Deilurnar náðu hámarki þegar upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og frjálslyndra á Akranesi slitnaði. Það gerðist þegar Karen Jónsdóttir bæjarfulltrúi sagði sig úr Frjálslynda flokknum og gekk til liðs við sjálfstæðismenn.

„Erlendis blasa verkefnin við hvert sem litið er svo sem í Palestínu, Írak eða Darfur, svo nokkur dæmi séu nefnd sem ofarlega hafa verið á baugi síðustu vikur og eru lýsandi fyrir það hve skortur og neyð bjargarlauss fólks er yfirþyrmandi. Það er verðugt verkefni fyrir Íslendinga að beita sér í auknum mæli fyrir bættum hag flóttafólks. Þegar í stað á að auka stórlega fjármagn til málaflokksins og verja því til þess að efla annars vegar hjálparstarf sem veitt er erlendis og hins vegar til þess að taka á móti flóttamönnum hér á landi," segir Kristinn á vef sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×