Innlent

Ekki rétt að birta kostnað vegna umferðarslysa á Reykjanesbraut

MYND/GVA

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra telur ekki rétt að birta upplýsingar um það hver kostnaður heilbrigðiskerfisins hafi verið vegna fimm manna sem slösuðust alvarlega á Reykjanesbraut á þriggja mánaða tímabili vegna þess að hægt væri að tengja kostnaðinn við einstaklinga.

Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Guðnýjar Hrundar Karlsdóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um kostnað vegna slysa á brautinni frá desember byrjun til febrúarloka. Alls varð 21 óhapp á þessum tíma og slösuðust fimm alvarlega í þeim en 37 lítils háttar.

Ráðherra segir að kostnaður vegna þeirra sem urðu fyrir minni háttar áverkum felist fyrst og fremst í flutningi á slysa- eða bráðamóttöku sjúkrahúsanna til rannsóknar og meðferðar. Kostnaður vegna þeirra sem slösuðust alvarlega liggi ekki endanlega fyrir en rétt sé að benda á að þar sem um mjög fáa sé að ræða gæti verið hægt að tengja kostnað við ákveðna einstaklinga og því ekki rétt að birta slíkt á þessum vettvangi.

Fyrirspurnin var lögð fram á þeim tíma þegar tíðar fréttir bárust af slysum á kafla á Reykjanesbraut þar sem tvöföldun var ólokið. Vinna við tvöföldunina er hins vegar hafin nú og á að ljúka í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×