Innlent

Ökumaðurinn kastaðist út úr bifreiðinni

Ökumaður jeppabifreiðarinnar sem lenti í hörðum áreksti við hópferðabifreið, á Reykjanesbraut milli gatnamóta Grænásvegar og Flugvallarvegar, mun hafa kastast út úr bifreiðinni við áreksturinn. Í dagbók lögreglunnar á Suðurnesjum segir að svo virðist sem jeppabifreiðinni hafi verið ekið í átt að hægri vegaröxl og skyndilega beygt til vinstri í veg fyrir hópferðabifreiðina.

Eins og greint var frá fyrr í dag var ökumaðurinn fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild ásamt þremur farþegum í sömu bifreið. Hópferðabifreiðin, sem var með 75 farþega innanborðs, staðnæmdist um 100 metrum frá slysstað og þykir mikil mildi að engin slasaðist í hópferðabifreiðinni. Ekki er vitað á þessari stundu um líðan fólksins í jeppabifreiðinni, að sögn lögreglu.

Farþegum í hópferðabifreiðinni var boðin áfallahjálp þegar til Reykjavíkur var komið. Loka þurfti Reykjanesbraut á meðan lögregla og sjúkraflutningsmenn unnu störf sín á vettvangi og var umferð því beint um Reykjanesbæ. Opnað var aftur fyrir umferð um Reykjanesbraut klukkan hálfsex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×