Innlent

Alþjóðasveit Landsbjargar fær þrjár byggingar á Vellinum

MYND/Pjetur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Sigurgeir Guðmundsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrituðu í dag samkomulag og samstarfssamning sem felur í sér afnot af þremur byggingum ráðuneytisins á öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að byggingarnar verði notaðar fyrir búnað alþjóðasveitarinnar sem hefur verið með samstarfssamning við ráðuneytið um nokkurra ára skeið og meðal annars tekið þátt í rústabjörgun á erlendri grund á vegum Íslensku friðargæslunnar.

„Það er afar ánægjulegt að geta nýtt byggingar á öryggissvæðinu með þessum hætti og aukið stuðninginn við starf alþjóðasveitarinnar, er haft eftir utanríkisráðherra í tilkynningunni.

Með því að geyma búnaðinn í byggingum við Keflavíkurflugvöll er hægt að stytta viðbragðstíma alþjóðasveitarinnar töluvert, komi til þess að hún verði send til starfa við rústabjörgun erlendis.

Íslenska friðargæslan og alþjóðasveitin vinna jafnframt að skoðun á mögulegri þjálfun heimamanna í tengslum við verkefni friðargæslunnar á átakasvæðum, til að byggja upp þekkingu á viðbrögðum við náttúruhamförum.

Sigurgeir segir húsnæðið á öryggissvæðinu breyta miklu. „Aðstaða sveitarinnar hefur stórbatnað og nálægðin við millilandaflugið bætir aðgengi að flutningum á búnaði og mannskap á hamfarasvæði. Þetta styttir ferilinn og þar með útkallstímann."

Alþjóðasveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar er níu ára gömul og fór í sitt fyrsta útkall árið 1999 þegar hún aðstoðaði við rústabjörgun í Tyrklandi í kjölfar mikilla jarðskjálfta. Einnig hefur hún farið til Alsír, Marokkós og Taílands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×