Innlent

Málefni Vestmannaeyjaferju enn í vinnslu

MYND/GVA

Málefni nýrrar Vestmannaeyjarferju eru enn í vinnslu hjá ríkisstjórn og verið er að fara yfir tilboð Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar. Þetta sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra á Alþingi í morgun.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, vakti athygli á því að tilboð í smíði og rekstur nýrrar ferju til næstu fimmtán ára hefðu verið opnuð nýlega. Aðeins eitt tilboð hefði verið talið gilt, frá Vestmannaeyjabæ og Vinnslustöðinni, en það hljóðaði upp á 16 milljarða sem væri 60 prósent yfir kostnaðaráætlun. Spurði hann ráðherra að því hvar málið stæði og vakti jafnframt athygli á opnu bréfi Alfreðs Tulinius skipaverkfræðingi í Morgunblaðinu í dag.

Þar hefði hann sagt að í uppsiglingu gæti verið alvarlegt mál þar sem meðal annars hefði ekki verið byggt á hlutlausu mati við þarfagreiningu fyrir ferjuna. Aðferðafræðin minnti á Grímseyjarferjumálið sem þó yrði smáslys í samanburði við skipbrot sem ferjumál Eyjamanna stefndu í.

Kristján L. Möller sagði málið í vinnslu hjá ríkisstjórninni. Upphaflegu tilboði Eyjamanna og Vinnslustöðvarinnar hefði verið hafnað en aðilarnir hefðu lagt fram nýtt tilboð og með það væri verið að vinna. Málið væri enn á vinnslustigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×