Innlent

Stórlega dregur úr útlánum bankanna til húsnæðiskaupa

Stórlega hefur dregið úr útlánum bankanna til húsnæðiskaupa og eru mánaðrleg útlán þeirra aðeins brot af því sem þau voru þegar bankarnir hófu að veita húsnæðislán.

Bankarnir fjármagna sig meira og minna með skammtímalánum og vextir þeirra ráðast að töluverðu leyti af stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem nú eru þeir hæstu sem þekkjast í heiminum. Íbúðalánasjóður fjármagnar sig hins vegar með langtímalánum með útgáfu skuldabréfa sem bæði eru verðtryggð og með ríkisábyrgð.

Í síðasta útboði Íbúðalánasjóðs óskaði hann eftir tilboðum í skuldabréf upp á átta milljarða. Eftirspurn fjárfesta og lánastofnana var hins vegar langt um fram það og fékk sjóðurinn tilboð í 24 milljarða með hagstæðari vöxtum en áður og gat því lækkað vexti sína á húsnæðislánum í gær.

Fyrstu mánuðina sem bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn haustið 2004 lánuðu þeir tæpa 30 milljarða á mánuði til húsnæðiskaupa á hagstæðum vöxtum. Undanfarið hafa bankarnir hins vegar sjálfir fengið lán á mun verri kjörum en áður þannig að þeir hafa hækkað húsnæðisvexti sína og eru ekki eins viljugir og aður til að lána. Til marks um það er að húsnæðislán þeirra voru innan við milljarður í síðasta mánuði en Íbúðalánasjóður veitti húsnæðislán upp á 3,6 milljarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×