Innlent

Spennan magnast á milli Indverja og Pakistana

Indverskir og Pakistanskir landamæraverðir voru við árlega minningarathöfn í gær.
Indverskir og Pakistanskir landamæraverðir voru við árlega minningarathöfn í gær.

Spennan virðist vera að magnast á milli kjarnorkuveldanna Indlands og Pakistans. Sagt var frá því fyrr í dag að indversk stjórnvöld hafi ráðið landsmönnum sínum frá því að fara yfir landamærin til Pakistans og nú berast fregnir af því að Pakistanski herinn sé að flytja sig í auknum mæli að landamærum ríkjanna.

Pakistanski herinn hefur verið í viðamiklum aðgerðum á landamærum Afganistans og Pakistans síðustu vikur að ósk Bandaríkjamanna sem hafa lagt hart að þeim að uppræta Talibana sem hafast við í Pakistan en gera árásir á Bandaríska hermenn í Afganistan. En í ljósi þess að deilur Pakistana og Indverja fara harðnandi dag frá degi hefur verið ákveðið að fækka hermönnum á þeim landamærum en fjölga þeim við indversku landamærin. Ennfremur hefur mörgum hermönnum sem eiga inni frí frá herþjónustu verið tilkynnt um að af því verði ekki í bráð.

Pakistönsk yfirvöld vilja ekki staðfesta að hermönnunum sé ætlað að fara að Indversku landamærunum en AP fréttastofan hefur það eftir háttsettum heimildarmönnum úr hernum. Ríkin tvö hafa deilt hart nær alla tíð en síðan hryðjuverkamenn gerðu árásir í Mumbai í síðasta mánuði hafa samskipti þeirra versnað mikið. Indverjar vilja margir hverjir meina að árásirnar hafi verið skipulagðar af stjórnvöldum í Pakistan en því harðneita Pakistanar.

Pakistan lýsti yfir sjálfstæði frá Indlandi árið 1947 og síðan þá hafa ríkin þrívegis háð styrjaldir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×