Innlent

Fargjöld til Reykjavíkur hækka

Akurnesingar eru margir hverjir óánægðir með mikla hækkun fargjalda í strætisvagna til Reykjavíkur.
Akurnesingar eru margir hverjir óánægðir með mikla hækkun fargjalda í strætisvagna til Reykjavíkur. fréttablaðið/hari

Mikil hækkun verður á fargjöldum í strætisvagna á milli Akraness og Reykjavíkur frá og með 2. janúar næstkomandi. Stakt fargjald hækkar um 200 prósent, úr 280 krónum í 840 krónur. Tímabilskort hækka minna.

Kurr er í Akurnesingum með þessa hækkun og varð hann til þess að Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, héldu fund með bæjarbúum um síðustu helgi.

Gísli segir að óhjákvæmilegt hafi verið að hækka fargjöldin. „Leggurinn frá Grundahverfi til Akraness kostar 33 milljónir króna. Nú þurfum við að greiða helminginn af þeirri upphæð, sem er eðlilegt. Það þýðir að við verðum að hækka gjaldskrána sem þessu nemur.“

Gísli segir að ferðir á milli Kjalarness og Akraness hafi verið tilraun. Mun meiri aðsókn hafi verið í þær en búist hafi verið við. „Það lá alltaf fyrir að þetta var tilraunaverkefni. Nú greiðir sveitarfélagið niður 1/3 af leiðinni þannig að heildarhækkun verður tvöföld en ekki þreföld.“

Tveggja vikna kort kostar eftir hækkun 7.000 krónur, eins mánaðar kort 11.200, þriggja mánaða 25.400 og níu mánaða 61.000 krónur. „Ferðin kostar þá ekki nema 162 krónur,“ segir Gísli, og vísar til þess að farið sé fram og til baka alla virka daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×