Innlent

Ljósmæður og HugGarður leita til ríkissáttasemjara

Svo virðist sem kjaradeilur margra háskólamenntaðra stétta séu að harðna því í morgun ákvað samninganefnd HugGarðs og Ljósmæðrafélags Íslands að vísa kjaraviðræðum við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara.

Aðildarfélög HugGarðs eru: Félag íslenskra fræða - kjaradeild, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Útgarður, félag háskólamanna.

Viðræður þeirra hafa staðið frá 18. mars og renna kjarasamningar félaganna við ríkið út á miðnætti annað kvöld. Félögin tvö höfnuðu tilboði samninganefndar ríkisins í morgun en það var lagt fram fyrir tveimur vikum.

Samkvæmt heimasíðu HugGarðs hljóðaði tilboðið upp á þriggja og hálfs árs kjarasamning með þremur krónutöluhækkunum á laun þ.e. 18 þúsund krónur 1. maí í ár, 13.500 krónur 1. maí 2009 og 6.500 krónur 1. janúar 2010 ásamt hækkunum á persónuuppbótum.

,,Félögin höfnuðu tilboði SNR og lýstu yfir vilja til að semja til eins árs án forsenduákvæða ásamt prósentuhækkunum á launatöflu. Ennfremur mótmæltu stéttarfélögin þeirri miklu skerðingu á kaupmætti félagsmanna sem í tilboðinu fólst.

Í ljósi þess hve mikið bar á milli samningsaðila ákvað samninganefnd HugGarðsfélaga og Ljósmæðrafélags Íslands að vísa viðræðum til ríkissáttasemjara og var það gert nú um hádegið. Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar á mánudaginn kl. 12:15," segir á heimasíðunni.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að slitnað hefði upp úr viðræðum hjúkrunarfræðinga og ríkisins og fer sú deila að líkindum til ríkissáttasemjara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×