Innlent

Segir engan vilja til að koma til móts við hjúkrunarfræðinga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Ég sé ekkert annað í stöðunni en að deilan fari til ríkissáttasemjara þó að það sé ekki búið að formlega vísa henni þangað. Það er enginn vilji til að koma til móts við okkar sjónarmið," sagði Elsa B. Friðfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og var ómyrk í máli þegar hún var spurð út í þá stöðu sem komin er upp í viðræðum félagsins og samninganefndar ríkisins en þær sigldu í strand í dag.

Helsti ásteytingarsteinninn er til hve langs tíma skuli samið. Vilja hjúkrunarfræðingar semja til skamms tíma vegna efnahagsástands en samninganefnd ríkisins vill semja til lengri tíma. „Við höfum alveg frá okkar fyrsta fundi 18. mars lagt áherslu á að gera skammtímasamning. Þá mátum við efnahagsástandið svo að þeim mun lengri sem samningurinn yrði því meiri yrðu kröfurnar af okkar hálfu. Við töldum að það væri beggja hagur að gera stuttan samning. Maður verður auðvitað að vona að þetta fari að róast og verðbólgan gangi niður í haust," sagði Elsa enn fremur.

Hún útskýrði að tillaga samninganefndar ríkisins væri að gera samning á svipuðum nótum og ASÍ-samningarnir sem gerðir voru í byrjun árs. „Sem Grétar Þorsteinsson sagði í gær að þyrfti kraftaverk til að myndu halda," sagði Elsa að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×