Innlent

Neytendasamtökin telja hækkun pakkaferða vafasama

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin vekja á heimasíðu sinni athygli á réttarstöðu neytenda vegna hækkana á svokölluðum pakkaferðum sem ferðaskrifstofur selja. Segja samtökin að borið hafi á því undanfarnar vikur að einhverjar ferðaskrifstofur hafi hækkað verð á pakkaferðum og sent væntanlegum ferðalöngum bakreikning eftir að gengið hafi verið frá samningum um ferðina.

Taka Neytendasamtökin það fram í pistli á heimasíðunni að lög um alferðir kveði skýrt á um að verð sem sett er fram í samningum skuli haldast óbreytt nema tekið hafi verið fram í samningnum að það geti hækkað og tilgreint sé nákvæmlega hvernig breytt verð skuli reiknað út.

Þau tilfelli sem komið hafa upp snúast meðal annars um það að tugþúsundahækkunum hafi verið skellt framan í kaupendur ferða og vísað til gengishækkana frá því áður en ferðin var keypt. Segja Neytendasamtökin þetta þverbrjóta meginreglur um skuldbindingargildi samninga og upplýsingaskyldu seljanda. Hér verði seljandi að útlista nákvæm rök fyrir verðhækkuninni auk þess sem það sé með öllu ótækt að vísa til gengisbreytinga sem áttu sér stað áður en ferð var keypt eða pöntuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×