Innlent

Tvö hjólhýsi eyðilögðust í eldi í Bryggjuhverfinu

Tvö hjólhýsi eyðilögðust þegar eldur kom kom upp á svæði þar sem hjólhýsi voru geymd í Bryggjuhverfinu í nótt.

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um eldinn rétt fyrir klukkan sex í morgun en þá voru bæði hjólhýsin alelda og hætta á að eldurinn næði í fleiri hjólhýsi.

Slökkviliðsmenn náðu að verja tvö önnur hjólhýsi en annað þeirra sviðnaði aðeins. Töluverðar gasspreningar urðu en tveir gaskútar sprungu.

Eldurinn kom upp á malarplani við Naustabryggju, vestan megin við Bryggjuhverfið og var vindátt þannig að reykinn lagið út á haf. Slökkvistarf tók tæpa klukkustund og er ekki vitað um eldsupptök.

Annir voru hjá slökkviliðnu í nótt. Slökkviliðið var kallað í Þverholt í Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan fjögur þar sem kveikt hafði verið í tveimur ruslagámum. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Nokkru áður eða um hálf tvö fór slökkviliðið í íbúð í Vesturbænum þar sem pottur hafði gleymst á eldavél. Ekki urðu miklar skemmdir en reykræsta þurfti íbúðina. Auk þess sinnti slökkviliðið fjörtíu og fimm sjúkraflutningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×