Innlent

Árangurslaus fundur hjá ljósmæðrum og ríkinu

Tveggja tíma fundur Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins hjá ríkissáttasemjara í dag reyndist árangurslaus en nýr fundur hefur verið boðaður á miðvikudaginn kemur.

Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, sagði í samtali við Vísi eftir fundinn að ýmislegt hefði verið rætt á fundinum en það strandaði algjörlega á því að ljósmæður fengju leiðréttingu á launum sínum. „Við viljum fá menntun okkar metna til launa," segir Guðlaug og segir töluvert vanta upp á að svo sé.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 á dögunum að lögfræðingar og verkfræðingar starfandi hjá hinu opinbera, með fimm ára háskólanám að baki, eru með að minnsta kosti hundrað þúsund krónum hærri laun en ljósmæður með sex ára háskólanám.

Aðspurð hvort hún sé bjartsýn á framhaldið segir Guðlaug að ljósmæður hafi alltaf ástæðu til að vera bjartsýnar en þær bíði eftir hvað næsti fundur beri í skauti sér. „Okkar mál eru algjörlega skýr, að fá menntun okkar metna til launa. "

Fram hefur komið að um hundrað ljósmæður, um helmingur ljósmæðra í landinu, hafi sagt upp störfum til að mótmæla kjörum sínum og taka uppsagnirnar gildi eftir þrjá mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×