Innlent

Lofar fögrum Skólavörðustíg fyrir sumarlok

Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri miðborgarinnar. Lofar að framkvæmdum við Skólavörðustíg verði lokið fyrir sumarlok.
Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri miðborgarinnar. Lofar að framkvæmdum við Skólavörðustíg verði lokið fyrir sumarlok.

Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri miðborgar Reykjavíkur, lofar borgarbúum að framkvæmdum við Skólavörðustíginn verði lokið fyrir sumarlok. Kaffihús við Skólavörðustíginn hafa neyðst til að loka vegna framkvæmdanna sem staðið hafa yfir í margar vikur.

"Það fylgir nú sá galli á gjöf Njarðar að þegar á að fegra og bæta veldur það yfirleitt tímabundnum óþægindum en ég lofa því að þessu verður lokið áður en sumarið er allt," segir Jakob Frímann. "Það er einbeittur vilji til að vinna þetta eins hratt og mögulegt er. Það undirstrikar þá ást sem við höfum á Skólavörðustígnum."

Borgarbúar hafa eflaust tekið eftir þeirri miklu upplyftingu sem orðið hefur á Laugaveginum síðustu misseri. Útstillingar í gluggum hafa leyst byggingarplast af hólmi og kaffihús blómstra nú í áður ónýttum húsum.

"Ég fagna því hvað þessi mál ganga vel en get nú ekki eignað mér heiðurinn af því," segir Jakob Frímann. "Þetta er fyrst og fremst vitnisburður um frábæra starfsmenn Reykjavíkuborgar."

Og borgarstjórinn fær hrós hjá Jakobi. "Eftir höfðinu dansa limirnir," segir Jakob. "Borgarstjórinn situr pollrólegur og öruggur og fylgir sínum málum eftir með öruggum hætti. Ég get vottað að allir limirnir dansa eftir han höfði í þessum málum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×