Innlent

Ástþór á Lýðræðisflokkinn – Leyfir Sturlu ekki að nota nafnið

Ástþór Magnússon.
Ástþór Magnússon.

„Ég og hópur fólks höfum verið að nota þetta nafn. Hann getur fundið sér eitthvað annað," segir Ástþór Magnússon þegar blaðamaður Vísis tjáði honum að Sturla Jónsson hefði í gær stofnað stjórnmálaflokk undir nafninu Lýðræðisflokkurinn.

Ástþór tekur fyrir að selja nafnið til Sturlu. „Þú selur ekkert svona. Þetta er bara félag sem hefur verið að gera einhverja hluti. Það yrði einfaldara ef hann fengi sér annað nafn. Annars fer fólk að blanda þessu saman og ruglast."

Nafnið er samt upprunalega komið frá Kristilega lýðræðisflokkunum en sá félagsskapur seldi síðan nafnið og kennitöluna til Ástþórs. „Hann notaði kennitöluna fyrir fjáraflanir Friðar 2000. Þar var fjáröflunarstjóri Sigurður Þórðarson, ásatrúarmaður," segir Árni Björn Guðjónsson, stofnandi Lýðræðisflokksins. Nafnið var skráð árið 1998 en flokkurinn bauð fram til Alþingskosninganna árið 1999 en undir nafninu Kristilegi lýðræðisflokkurinn.

Árni segir að fleiri hafi seilst eftir nafninu því Sverrir Hermannsson hafi einnig viljað stofna flokk undir þessu nafni á svipuðum tíma og Árni og félagar hans voru í þann mund að stofna stjórnmálahreyfingu. Árni var hins vegar fyrri til og í staðinn varð Sverrir að finna annað nafn og úr varð Frjálsyndi flokkurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×