Innlent

Langjökull horfinn um miðja næstu öld?

Búast má við því að jöklar hér á landi hopi ört á yfirstandandi öld og haldi fram sem horfir verður Langjökull horfinn um miðja næstu öld. Þetta kemur fram í skýrslu vísindanefndar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra skipaði í fyrra til að meta áhrif loftlagsbreytinga í heiminum á Ísland.

Meginniðurstaða nefndarinnar er sú að loftlagsbreytinga gæti nú þegar hér á landi og að þær muni hafa veruleg áhrif á náttúrufar. Þannig er gert ráð fyrir að Vatnajökull og Hofsjökull muni á næstu 150 árum hopa upp á hæstu tinda og vegna aukinnar bráðnunar mun afrennsli frá jöklum aukast mjög á fyrri hluta aldarinnar en minnka vegna stöðugrar rýrnunar jöklanna.

Hitinn eykst meira á veturna en sumrin

Þá benda loftlagslíkön til þess að hitinn á Íslandi muni aukast um 0,2 gráður ár áratug og er líklegast að það hlýni mest að vetrarlagi en minnst á sumrin. „Þótt veðurfarslíkön geri ráð fyrir aukinni úrkomu ber þeim ekki saman um hversu mikil aukningin verður. Úrkomudögum mun líklega fjölga og ákefð úrkomu aukast," segir á vef umhverfisráðuneytisins.

Í skýrslunni er enn fremur gert ráð fyrir því að það hlýni á hafsvæðinu umhverfis Ísland á þessari öld og þá muni botnfiskum, eins og kolmunna og makríl, fjölga hér við land auk þess sem líkur eru á að auknum göngum úr norsk-íslenska síldarstofninum inn á Íslandsmið. Hlýnunin er hins vegar talin geta takmarkað útbreiðslu norrænni tegunda eins og loðnu, grálúðu og rækju sem gæti haft neikvæð áhrif á fæðubúskap þorsks.

„Meiri hlýnun á heimskautssvæðinu en hér við land kann að hafa mikil óbein áhrif á lífríkið í sjónum við Ísland, þar sem ekki er ólíklegt að flökkustofnar eins og síld, loðna, og makríll breyti um göngur og stofnstærðir riðlist þegar nýjar lendur opnast í N-Íshafi," segir enn fremur í skýrslunni.

Hlýnun hefur góð áhrif á gróðurþekju og landbúnað

Þá er gert ráð fyrir að hlýnunin hafi góð áhrif á gróðurþekju landsins og sömuleiðis landbúnað en hún mun gera norðlægum fuglategundum erfiðara uppdráttar en fjölga suðlægari fuglategundum hér á landi. Þá er bent á að umhverfisbreytingar í hafinu við landið hafi valdið verulegri fækkun sjófugla.

Í skýrslunni segir að líklegar breytingar á sjávarstöðu á þessari öld séu háðar hnattrænni hækkun sjávar og lóðréttum hreyfingum lands. Landris við suðausturströndina geti vegið upp sjávarborðshækkun en landsig á suðvesturhluta landsins geti aukið við hana. „Talið er að hnattræn sjávarhækkun á þessari öld verði 0,2 til 0,6 metrar, en veruleg óvissa er í þessu mati og ekki hægt að útiloka enn meiri hækkun," segir í skýrslunni.

Aukin sjávarhæð geti valdið náttúruvá og þá gætu vetrar- og haustflóð orðið meiri samfara aukinni úrkomu og flóð gætu orðið víðar á landinu en nú er. Vorflóð gætu enn fremur orðið sneggri og meiri.

Skýrsla nefndarinnar byggir að hluta á fjórðu úttekt IPCC, en einnig að verulegu leyti á rannsóknum íslenskra og erlendra vísindamanna á umhverfisbreytingum á Íslandi. Margir vísindamenn mættu á fundi nefndarinnar og kynntu rannsóknaniðurstörðu, og einnig lögðu margir vísindamenn nefndinni til efni og lásu yfir skýrsludrög.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×