Innlent

Fjármálaráðgjöf fyrir bændur í verulegum vanda

Haraldur Benediktsson er formaður Bændasamtaka Íslands.
Haraldur Benediktsson er formaður Bændasamtaka Íslands.

Bændasamtök Íslands hafa ákveðið að grípa til sérstakrar fjármálaráðgjafar fyrir þá bændur sem eru í verulegum fjárhagsvanda.

Eftir því sem segir á vef Bændasamtakanna leiddi skoðanakönnun á vegum þeirra í ljós að umtalsverð þörf væri fyrir slíka aðstoð. Bent er á að undanfarin misseri hafi rekstrarskilyrði bænda versnað mjög, aðgangur og kjör á lánsfé hafi versnað til muna og þá hafi átt sér stað miklar hækkanir á aðföngum á erlendum mörkuðum. Á þetta sérstaklega við áburð og kjarnfóður en hið síðarnefnda hefur hækkað um nærri þriðjung það sem af er ári.

Bændasamtökin hyggjast efla rekstrarráðgjöf búnaðarsambanda á landinu og jafnframt er unnið að frekari þróun greiningartækja til að bæta enn frekar gæði greininga á rekstri bænda.

Ráðgjafarþjónusta Bændasamtakanna er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem eru nærri því að komast í þrot með fjármál sín, skuldir búsins eru komnar í innheimtuferli hjá lánadrottnum, borist hafa ítrekaðar áminningar um vanskil, birgjar eru hættir að veita fyrirgreiðslu og tekjur búsins duga ekki fyrir útgjöldum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×