Innlent

Ráðuneyti Björns vill Jóhann burt af Suðurnesjum

Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum
Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum

Dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt Jóhanni R. Benediktssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að starf hans verður auglýst til umsóknar.

Skipunartími hans rennur út 1. apríl á næsta ári og samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skal tilkynna viðkomandi að embættið verði auglýst til umsóknar eigi síðar en hálfu ári sá tími rennur út. Þetta kemur fram í 24stundum í dag.

Morgunblaðið segir að ekki hafi áður verið auglýst laus staða forstöðumanns ríkisstofnunar vilji forstöðumaðurinn á annað borð sinna starfinu áfram.

Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri á dómsmála- og löggæsluskrifstofu ráðuneytisins tilkynnti Jóhanni þetta á fundi fyrr í mánuðinum.

,,Ég get staðfest það að mér hefur verið tilkynnt af dómsmálaráðuneytinu að starf mitt verði auglýst til umsókinar. Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta að svo komnu máli," hafa 24stundir eftir Jóhanni.

Fyrr á árinu tilkynnti Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, að fyrirhugað er að skipta embætti Jóhanns upp í þrjá hluti á næsta ári.

Jóhann tilkynnti síðasta vetur að hann hyggðist segja starfi sínu lausu eftir deilur við ráðuneytið um rekstraráætlun embættisins. Jóhann skilaði þó aldrei inn uppsögn.

Jóhann var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli árið 1999 og síðar gerður að lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Jóhann var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli árið 1999 og síðar gerður að lögreglustjóra á Suðurnesjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×