Innlent

Gera ráð fyrir að atvinnuleysi tvöfaldist

Allt útlit er fyrir að atvinnuleysi muni tvöfaldast á næstu mánuðum. Rekstrarstaða íslenskra fyrirtækja hefur snarversnað á þessu ári. Vextir hafa hækkað upp úr öllu valdi og þá hafa bankarnir nánast lokað á öll útlán vegna lánsfjárkreppunnar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagði í fréttum Stöðvar 2 að það væri þungt hljóð í mönnum og útlitið væri kolsvart. Hann sagðist vilja sjá stjórnvöld auka opinberar framkvæmdir til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á ný.

Þá sagði Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að gjaldþrota og uppsagnahrinan nú væri aðeins byrjunin en samtökin spá svörtu hausti.

Atvinnuleysi hefur verið í kringum eitt prósent frá áramótum. Samkvæmt spá vinnumálastofnunar bendir allt til þess að atvinnuleysi aukist á næstu mánuðum og fari um eða yfir tvö prósent undir árslok. Það jafngildir því að um 3.400 manns séu án atvinnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×