Innlent

Réðst með hníf á forstöðumann áfangaheimilis

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík.
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík.

Fréttastofa Sjónvarps greindi frá því í kvöldfréttum sínum nú fyrir stuttu að íbúi á áfangaheimili Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík hafi ráðist með hníf á forstöðumann heimilisins og stungið hann þrisvar sinnum. Hlaut forstöðumaðurinn sár á upphandlegg og baki en er ekki alvarlega slasaður að sögn Hróðnýjar Garðarsdóttur, sviðsstjóra hjá svæðisskrifstofunni.

Íbúinn er á þrítugsaldri og bjó á áfangaheimili fyrir ungt fólk sem er að byrja að fóta sig í lífinu. Hann hefur verið færður yfir á geðdeild Landspítalans og kærður fyrir tilraun til manndráps.

Í frétt Sjónvarpsins kom einnig fram að þetta er í fyrsta skipti sem svo alvarlegur atburður á sér stað hjá stofnuninni og samkvæmt Hróðnýju verða starfsreglur endurskoðaðar í kjölfarið.

Vísir hafði samband við Jón Heiðar Ríkharðsson, framkvæmdastjóra svæðisskrifstofunnar, í kjölfar fréttarinnar og vildi hann ekki tjá sig um málið að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×