Innlent

Ökuþórar segjast hafa gætt fyllsta öryggis

Myndband sem birtist á Vísi í gær og sýnir þegar bíl er velt í iðnaðarhverfi í Grafarvoginum hefur vakið athygli. Mennirnir sem hlut áttu að máli eru ósáttir við umfjöllun fjölmiðla í málinu og höfðu samband við Vísi til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir segja enga hættu hafa verið á ferðum enda hafi ökumaðurinn verið vel búinn og götunni lokað á meðan á akstrinum stóð.

Þeir Hafliði Þór Þorsteinsson og Guðbjartur Ægir Ágústsson segjast hafa gert öflugar öryggisráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys og meðal annars lokað götunni þar sem veltan var framkvæmd. Bíllinn hafi verið búinn veltibúri auk þess sem ökumaðurinn hafi verið með hjálm og í hlífðarfatnaði.

Mennirnir benda einnig á að ekki hafi verið farið yfir leyfilegan hámarkshraða í götunni sem sé fimmtíu kílómetrar á klukkustund og að vel hafi verið gætt að því að engin væri á ferð þegar látið var til skarar skríða.

Lögregla kom á staðinn eftir að bílnum hafði verið velt eins og sést í myndbandinu og segja þeir félagar að lögreglumaðurinn hafi ekki gert athugasemdir við bílveltuna aðrar en þær að þeir skyldu þrífa vel eftir sig. Í fréttum af málinu í gær var haft eftir lögreglunni að verið væri að kanna málið en á myndbandinu sést að lögreglumaður kemur á vettvang.

Myndband af veltunni má sjá hér.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×