Innlent

Rúmlega 35.000 fangar hófu afplánun á Norðurlöndum árið 2006

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fangaklefi.
Fangaklefi.

Samanlagt hófu 35.368 dómþolar á Norðurlöndunum afplánun á árinu 2006 sem er 14% aukning frá 2002. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fangelsismálastofnana Norðurlandanna og taka íslensk fangelsisyfirvöld nú þátt í verkefninu öðru sinni.

Miðað við fólksfjölda landanna er 14% aukningin í reynd fremur lítil, segir í skýrslunni. Í henni er enn fremur að finna upplýsingar um meðaltalsfjölda fanga á hverja 100.000 íbúa. Hann hefur aukist um 15% á Norðurlöndunum á viðmiðunartímanum en hefur þó ekki breyst að ráði milli áranna 2005 og 2006.

Fangafjöldinn í Danmörku og Finnlandi minnkar á árinu 2006 en eykst í Noregi og lítillega í Svíþjóð. Ísland er með langminnsta fangafjöldann á Norðurlöndunum eða 48 fanga á hverja 100.000 íbúa og hefur fjöldinn verið svipaður á tímabilinu. Annars staðar á Norðurlöndunum er fangafjöldi á hverja 100.000 íbúa frá 71 til 79. Hlutfall gæsluvarðhaldsfanga af heildarfangafjölda er lægst á Íslandi og í Finnlandi eða 12% og 13% en í Svíþjóð er rúmlega fimmti hver fangi gæsluvarðhaldsfangi, segir á vef Fangelsismálastofnunar.

Í öllum löndunum nema Finnlandi hefur fullnusta refsinga utan fangelsis færst í vöxt. Hér er aðallega um að ræða samfélagsþjónustu, skilorðsbundnar reynslulausnir og önnur skilorðsbundin viðurlög.

Í Svíþjóð hefur þeim sem afplána undir rafrænu eftirliti fjölgað um 52% á viðmiðunartímabilinu en Svíar hafa tekið upp þá nýbreytni að losa menn fyrr út með því skilyrði að vera undir rafrænu eftirliti og hefur það áhrif á fangafjöldann til lækkunar. Noregur og Danmörk hafa þegar hafið fullnustu með rafrænu eftirliti en Finnar og Íslendingar ekki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×