Skoðun

Siðlaus þjóðkirkjulög

Hjörtur Magni Jóhannsson skrifar

Umræðan

Þjóðkirkjan

Síðastliðinn sunnudag flutti ég útvarpspredikun. Vegna viðbragða biskupsstofu vil ég árétta eftirfarandi. Stjórnarskrá lýðveldisins kveður á um verndun evangelískrar lúterskrar kirkju. Frjálsar evangelískar kirkjur hafa vaxið gífurlega undanfarinn áratug hér á landi, vel á annan tug þúsunda tilheyra þeim í dag. Um það bil 65.000 Íslendingar hafa kosið af frjálsum vilja að standa utan þjóðkirkjunnar. Hlutfallslega fækkar í þjóðkirkjunni þrátt fyrir alla hennar árlegu ríkis milljarða. Þúsundir hafa skráð sig út en margfalt færri skráð sig inn.

Kristni er eitt, en ríkisstyrkt þjóðkirkja er allt annað. Þetta er í samræmi við jákvæða þróun mála í löndunum í kring og víðast hvar í heimi og þetta er jákvæð þróun fyrir kristni í landinu. Á þetta hef ég bent. En það ámælisverða er að þjóðkirkjustofnunin lætur nú enn sem hún sé eina kristna trúfélagið í landinu. Einmitt nú á föstudag mun auka-kirkjuþing afgreiða til kirkjumálaráðherra drög að nýjum þjóðkirkjulögum. Þar er látið sem frjálsir lúterskir söfnuðir séu ekki til! Þjóðkirkjan og kirkjumálaráðherra ætla ein áfram að höndla með gjörvallan trúarlegan arf allra landsmanna. En það var einmitt fyrir áratug sem gömlu lögin og samningur milli ríkis og þjóðkirkju útilokuðu frjáls evangelísk lútersk trúfélög frá sínum réttmæta trúarlega arfi. Mótmælum Fríkirkjunnar var þá ekki sinnt.

Í drögunum er að finna nýmæli sem virðast beinlínis sett öðrum trúfélögum til höfuðs. Kirkjulegur arfur allra landsmanna er ekkert einkamál einnar stofnunnar eða ráðuneytis. Hér eru á ferðinni drög að siðlausri löggjöf sem sundrar. Full þörf er á að vara þjóðina við.

Höfundur er prestur og forstöðumaður Fríkirkjunnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×