Innlent

Tollar á erlendum landbúnaðarvörum lækka hugsanlega

Innflutningur á erlendum landbúnaðarvörum eykst og tollar lækka ef skrifað verður undir samninga í Doha viðræðunum í Genf í Sviss. Þetta ætti að skila sér í lægra verði á kjöt- og mjólkurvörum hér á landi.

Það er mikið þrefað í Genf í Sviss þessa dagana þar sem Doha viðræðurnar fara fram. Almennt snúast viðræðurnar um að auka frelsi og afnema viðskiptahindranir milli ríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Líkt og í fyrri samningalotum eru það viðskipti með landbúnaðarvörur sem eru mesta þrætueplið en það er það svið sem snertir okkur Íslendinga hvað mest. Enn er óútséð hvort samningar takist, en samningaferlið er bæði gríðarlega flókið og umfangsmikið. Samningaaðilar vonast þó til að ná málamiðlun í vikunni.

Fari svo að skrifað verði undir samninga gæti ýmislegt breyst hvað varðar innflutning á kjöt- og mjólkurvörum hingað til lands, ekki síst fyrir buddu íslenskra neytenda.

Þannig er gert ráð fyrir að tollkvótar verði stækkaðir, það er að hægt verður að flytja inn til landsins meira magn landbúnaðarvara á lágum tollum. Þetta gæti haft í för með sér að neysla á erlendum landbúnaðarvörum tvöfaldist, og verði um 8 prósent af heildarneyslu.

Tollar á kjöt- og mjólkurvörum gætu lækkað um allt um 23 til 46 prósent.

Beinir styrkir til íslensks landbúnaðar gætu dregist saman um allt að helming. Heildarstuðningur mun væntanlega ekki dragast saman, því svokallaðir grænir styrkir kæmu einfaldlega í stað beinna styrkja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×