Innlent

Með kókaín og kannabis í kerfinu

MYND/HKr

Lögreglan á Akranesi hafði í nógu að snúast í liðinni viku og hafði meðal annars afskipti af ökumanni sem ók of hratt á Vesturlandsvegi.

Í viðræðum við hann vaknaði grunur lögreglumanna um að hann væri undir áhrifum fíniefna og við þvagprufu kom í ljós að hann var með amfetamín, kókaín og kannabis í kerfinu eins og það er orðað í dagbók lögreglu. Við leit í bifreiðinni fundust nokkur kíló af hvítum íblöndunarefnum og er þar líklegast um að ræða mjólkursykur sem er eitt helsta efnið sem notað er til að drýgja kókaín og amfetamín.

Á laugardagsmorgun óku lögreglumenn svo fram á umferðarslys á Vesturgötu á Akranesi en þar hafði bifreið verið ekið af miku afli á ljósastaur. Ökumaður lá meðvitundarlaus utan við bifreiðina en við nánari skoðun var óljóst hvort um meðvitundarleysi af völdum höfuðhöggs eða áfengisneyslu var að ræða.

Reyndist ökumaður tiltölulega lítið slasaður en þem mun ölvaðri. Var hann fluttur á slysadeild Sjúkrahússins á Akranesi þar sem hann var lagður inn til skoðunar eftir að tekið hafði verið úr honum blóðsýni til rannsóknar. Bifreiðin var ónýt eftir áreksturinn og sömuleiðis ljósastaurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×