Innlent

Kínaferð Jóhönnu kostaði 2 milljónir

Ferðalag Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra og fylgdarliðs á Ólympíumót fatlaðra í Kína kostaði tæpar tvær milljónir króna. Með í för voru ráðuneytisstjóri og aðstoðarmaður ráðherra.

Það vakti nokkurn úlfaþyt í samfélaginu þegar Fréttablaðið upplýsti um kostnaðinn af ferðalögum menntamálaráðherra, ráðuneytisstjóra og mökum þeirra á Ólympíuleikana í Peking. En skömmu eftir þá leika var haldið Ólympíumót fatlaðra í Kína og þangað fór félagsmálaráðherra til að styðja keppendur okkar.

Fréttastofa hefur fengið upplýsingar frá ráðuneytinu um kostnaðinn við þá för. Þegar þessar tvær ferðir eru bornar saman má sjá að Þorgerður Katrín fór með fylgdarliði tvisvar til Kína eins og frægt er orðið.

Eins og fram kom á sínum tíma í Fréttablaðinu fóru Þorgerður Katrín, eiginmaður hennar, ráðuneytisstjóri og eiginkona hans í fyrri ferðina. Þrjú þeirra fóru síðan aftur, sem gera samtals 7 flug - fram og tilbaka sem kostuðu rúmar 3,6 milljónir króna.

Á ólympíumót fatlaðra fóru félagsmálaráðherra, ráðuneytisstjóri og aðstoðarmaður ráðherra en enginn maki, eða 3 flug báðar leiðir, samtals rúm milljón.

Gisting Þorgerðar og fylgdarliðs kostaði rífar 770 þúsund krónur en Jóhönnu og félaga liðlega 420 þúsund krónur.

Dagpeningarnir námu rétt tæpum 550 þúsund krónum hjá Þorgerði og félögum en hjá Jóhönnu og félögumum 511 þúsund krónum.

Heildarkostnaður ríkissjóðs af Kínaferð menntamálaráðherra og fylgdarliðs var því tæpar 5 milljónir króna - en hjá félagsmálaráðherra og fylgdarliði rétt tæpar tvær milljónir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×